154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[17:02]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Kærunefnd útlendingamála var ekki komið á fót til að svipta dómsmálaráðherra yfirstjórnar- og eftirlitsskyldum sínum gagnvart undirstofnun sem heitir Útlendingastofnun. Þannig er það nú bara. Ef ráðherra verður var við að verið sé að framkvæma umsóknir með óeðlilegum hætti, að verið sé að túlka lög með afbrigðilegum hætti og allt öðrum hætti en öll löndin í kringum okkur, þá ber ráðherra að bregðast við. Kannski að ég misnoti bara aðstöðu mína hérna og fái að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra, sem telur greinilega að hér hafi dómsmálaráðherra verið algerlega ábyrgðarlaus af öllum stjórnarathöfnum: Hvað hyggst dómsmálaráðherra gera ef Útlendingastofnun heldur áfram t.d. að afgreiða umsóknir fólks frá tilteknum ríkjum, veita viðbótarvernd algerlega þvert á það sem tíðkast í öllum öðrum Evrópuríkjum og senda þannig skilaboð út í heim um að hingað geti bara allir komið og fengið viðbótarvernd, óháð einstaklingsbundnum aðstæðum? Myndi hæstv. ráðherra horfa bara þegjandi og hljóðalaust upp á það (Forseti hringir.) ef Útlendingastofnun myndi aftur taka upp á þessu eða myndi hæstv. ráðherra bregðast við, (Forseti hringir.) annaðhvort á fyrstu stigum málsins í krafti yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda sinna eða með lagasetningu á síðari stigum málsins?